Kvika banki hf. hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í Öldu sjóðum hf. Kaupin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki eftirlitsstofnana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku.

Í byrjun júní var greint frá því að verðbréfafyrirtækið Virðing hefði fest kaup á öllu hlutafé Öldu sjóða. Í lok júnímánaðar festi Kvika svo kaup á öllu hlutafé Virðingar með það að markmiðið að sameina félögin. Kaupin á Virðingu hf. eru háð samþykki eftirlitsstofnana og eru nú til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu.

Heildareignir í stýringu hjá Öldu nema 45 milljörðum króna og hjá félaginu starfa sex starfsmenn. Í tilkynningunni frá Kviku segir að með kaupum á Virðingu og Öldu verður Kvika einn umsvifamesti aðili í eingastýringu á Íslandi með um 280 milljarða króna í stýringu.