Kvika banki hf. og hluthafar GAMMA Capital Management hf. hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Fyrirhuguð viðskipti eru háð ýmsum skilyrðum, svo sem niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku banka.

„Með breyttu eignarhaldi munu myndast enn frekari tækifæri í starfsemi GAMMA en félagið verður rekið áfram undir nafni GAMMA sem sjálfstætt dótturfélag Kviku banka. Markmið Kviku banka með kaupunum er að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar og erlendrar starfsemi,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Viljayfirlýsing aðila kveður á um að kaupverð fyrir allt útistandandi hlutafé GAMMA nemi 3.750 milljónum króna, m.v. stöðu félagsins í árslok 2017 og stöðu árangurstengdra þóknana sem eftir á að tekjufæra. Jafnframt kaupa núverandi hluthafar GAMMA tilteknar eignir af félaginu. Kaupverðið á GAMMA getur tekið breytingum til hækkunar og lækkunar eftir því hvernig rekstur og verðmæti eigna GAMMA þróast á næstu misserum. Kaupverðið samanstendur af reiðufé og hlutabréfum í Kviku banka, með eftirfarandi hætti:

  • Reiðufé að fjárhæð 1.057 milljónir króna sem greiðist við frágang viðskiptanna og árangurstengd greiðsla, sem metin er á um 1.443 milljónir króna m.v. stöðu GAMMA í árslok 2017.
  • Hlutafé í Kviku banka að nafnvirði 56.124.133 hluta sem greiðist við frágang viðskipta og árangurstengd greiðsla sem getur numið allt að 108.946.847 hlutum að nafnvirði.

Eigið fé GAMMA í árslok 2017 var 2.054 milljónir króna en þá höfðu ekki verið tekjufærðar 600 milljónir króna kröfur á sjóði í rekstri félagsins vegna árangurstenginga.  Eignir í stýringu hjá GAMMA námu 138 milljörðum króna í árslok 2017.

Kvika banki leggur áherslu á fjárfestingabankastarfsemi og er með sterka stöðu í eigna- og sjóðastýringu. Bankinn er einnig með öfluga starfsemi í markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfðri lánastarfsemi og einkabankaþjónustu.  Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku banka og rekstrarfélögum í eigu bankans verða um 400 milljarðar króna gangi kaupin á GAMMA eftir.

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA segir að með viðskiptunum muni GAMMA styrkjast. „GAMMA mun áfram starfa á sama stað í Garðastræti 37 með sama markmið að leiðarljósi, að veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi fjármálaþjónustu. Viðskiptavinir GAMMA munu finna að félagið verður enn öflugra þar sem í boði verður fjölbreyttari fjármálaþjónusta með auknu vöruframboði jafnt fyrir almenna fjárfesta sem og stofnanafjárfesta.”

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku fagnar áfanganum. „Kvika banki hefur verið í sókn á íslenskum fjármálamarkaði og þessi viðskipti munu efla bankann enn frekar. Til viðbótar við öfluga eigna- og sjóðastýringu þá er erlend starfsemi GAMMA einnig þáttur sem við horfum til. Samkeppni er að aukast og fjármálamarkaðir eru að opnast enn frekar. Til að mæta þeim breytingum sem eru í farvatninu erum við að fjölga valkostum fyrir viðskiptavini bankans.“

Gísli Hauksson, annar stofnenda GAMMA og stærsti hluthafi félagsins segir sögu GAMMA hafa verið árangursríka fyrir viðskiptavini félagsins og hluthafa. „GAMMA hóf starfsemi með nokkur hundruð milljónir króna í stýringu en 10 árum seinna hefur félagið byggt upp, eingöngu með innri vexti, innlenda og erlenda sjóði sem eru um 138 milljarðar króna að stærð. Vöruþróun, nýjungar í fjárfestingum, ítarleg greiningarvinna og góð ávöxtun hefur verið lykilatriðið í vexti GAMMA. Metnaður og framsýni hefur einkennt eigendur og stjórnendur Kviku banka og tel ég að þeir muni leiða GAMMA áfram á þeirri braut til heilla fyrir hluthafa, viðskiptavini sem og starfsmenn GAMMA.”