*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 9. október 2019 09:18

Kvika kaupir helming nýrra bréfa Upphafs

Upphaf fasteignafélag fær hálfan milljarð króna frá móðurfélagi Gamma, en nýju bréfin verða með tvöfalt hærri vexti.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kvika banki kaupir sjálft helming nýs skuldabréfs Upphafs fasteignafélags en stefnt er að því að gefa út milljarðs skuldabréf jafnvel strax í dag að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa skuldabréfaeigendur fyrirtækisins, sem er í eigu sjóðsins Gamma: Novus, samþykkt skilmálabreytingar á bréfunum sem til að mynda lengja í bréfunum og lækka vextina um ríflega helming, en vextirnir voru á bilinu 15-16,5% áður.

Þurfti þess við eftir að kom í ljós að verkefni voru komin skemmra á veg og höfðu verið dýrari en ætlunin var, en félagið skuldaði 1,1 milljarð á síðasta ári.

Þá hefur náðst samkomulag við helstu skuldabréfaeigendur Upphafs, um að leggja til hina 500 milljónirnar, en meðal stærstu eigenda bréfa félagsins er fjárfestingarfélagið Stoðir, TM og félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur aðaleigenda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum.

Bæði TM og Sjóvá gáfu út afkomuviðvörun vegna félagsins á sínum tíma og sagði Sigurður Viðarsson forstjóri TM það „með ólíkindum að menn hafi klúðrað þessu“. Nýja skuldabréfið mun bera 12% vexti, ekki 6% eins og gömlu bera nú eftir breytingar, sem og þau verða framar í kröfuröðinni.

Í síðustu viku bárust sjóðsfélögum í Novus þær fréttir að við endurmat eigna sjóðsins væri eigið fé þess orðnar 42 milljónir króna, en þremur mánuðum áður hafði það verið metið á 3,9 milljarða. Lækkaði samhliða gengi sjóðsins sem fór hæst í 250 í árslok 2017 niður í 2, en það bráðabirgðagengi miðast við að takist að bjarga félaginu með viðbótarfjármagni.

Nú er félagið með um 280 íbúðir í framkvæmdum en áætluð verklok eru nú áætluð í lok næsta árs, ef viðbótarfjármagn fæst.

Hér má lesa frekari fréttir um málefni fjárfestingarsjóða Gamma, það er Anglia, Novus og Upphafs: