Kvika banki hefur keypt 6,4 milljón hluti í Sýn sem jafngilda, þegar þetta er skrifað, rétt rúmum 400 milljónum króna, og rúmlega 2% hlut í félaginu.

Bankinn á nú samtals rúma 21 milljón hluti, sem er rúmur 7% hlutur og jafngildir 1,3 milljörðum króna.

Hafa ber þó í huga að bankar kaupa oft hlutabréf fyrir viðskiptavini sína og halda utan um þau fyrir þá, og því er ekki ólíklegt að Kvika sé aðeins milligönguaðili fyrir kaupunum.

Töluverðar sviptingar hafa átt sér stað í eignarhaldi Sýnar í vikunni, en 365 miðlar seldu á þriðjudag 11% hlut sinn í félaginu fyrir tæpa tvo milljarða, og Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Sýnar, keypti rúman 1% hlut fyrir 200 milljónir, og á eftir viðskiptin 8,5% hlut. Gangvirði bréfanna er í dag rúmum 3% hærra en verðið sem viðskiptin á þriðjudag voru á.