Kvika banki hefur sent frá sér afkomuviðvörun og lækkað afkomuspá sína úr 2,9 milljarða króna í 2,5 til 2,8 milljarða króna fyrir skatta, eða um á bilinu 100 til 400 milljónir króna.

Kemur sú lækkun eftir að afkoman hafði verið hækkuð tvisvar í ár, fyrst úr tæplega 2 milljörðum í 2,7 milljarða króna samhliða birtingu uppgjörs fyrsta ársfjórðungs og síðan í 2,9 milljarða samhliða uppgjörs annars ársfjórðungs.

Segir bankinn í tilkynningu að skýringana megi leita í erfiðum markaðsaðstæðum á verðbréfamarkaði, þá einkum á hlutabréfamarkaði, einskiptis gjaldfærslum og endurmati á tilteknum eignum Gamma og loks lækkun ógreiddra árangurstengdra þóknana hjá Gamma vegna fasteignasjóða.

Bankinn segir að lækkun þóknananna séu mun minni eftir áhrif skatta en fyrir, enda hafi verið samið um að hluti af kaupverðinu væri háður skilyrði um þóknanirnar. Þannig lækki greiðsla Kviku vegna kaupanna á Gamma á móti lækkun tekna félagsins.

Afkomuviðvörunin nú er þvert á tilkynningu Kviku frá 30. september um að lækkun á gengi tveggja sjóða Gamma hefði ekki áhrif til lækkunar á afkomuspá bankans, en jafnframt segir bankinn að ekki hafi verið gerð breyting á eignfærðu yfirfæranlegu skattalegu tapi á árinu.

Bankinn hefur eignfært hluta af yfirfæranlegu skattalegu tapi sínu, að því marki sem líklegt er að það nýtist á móti reiknuðum tekjuskatti í framtíðinni, sem frestaða skatteign á efnahag sínum.

Frestaða skatteignin verður endurmetin í árslok samhliða áætlunargerð fyrir næsta ár og ársuppgjöri bankans. Þar sem skattskyldir tekjustofnar bankans hafa aukist á árinu segir bankinn líklegt að það komi til aukinnar eignfærslu á yfirfæranlegu tapi í árslok.