Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 3,2 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Gengi sex félaga hækkaði í dag, sjö félög lækkuðu og hlutabréfaverð sjö félaga stóð óbreytt.

Útgerðarfélagið Brim lækkaði mest allra félaga á aðalmarkaðnum eða um tæp 2% í 447 milljóna veltu. Gengi Brims hefur nú lækkað um nærri 4% í ár og stendur í 75 krónum en hafði að vísu hækkað verulega á síðast ári. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar lækkaði einnig um 0,6% í dag og stendur nú í 99 krónum.

Mesta veltan var með hlutabréf Kviku sem lækkuðu um 1,2% í 662 milljóna króna viðskiptum þrátt fyrir að bankinn tilkynnti um jákvæða afkomuviðvörun í gærkvöldi. Gengi Kviku stendur nú í 24,9 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í október. Gengi Kviku hefur lækkað um 12,6% frá því að það náði hæstu hæðum í 28,5 krónum þann 18. nóvember síðastliðinn.

Sjá einnig: Hagnaður Kviku umfram áætlun

Kvika greindi frá því að afkoma á síðasta fjórðungi 2021 hefði verið umfram spár og að hagnaður fyrir skatta á öllu síðasta ári hefði alls numið 10,5 milljörðum króna. Einnig var gert grein fyrir mati á óefnislegum eignum við samruna Kviku, TM og Lykils á síðasta ári.

Origo hækkaði mest allra félaga eða um 2,2%, þó aðeins í 91 milljón króna viðskiptum. Fasteignafélögin Reitir og Eik fylgdu þar á eftir í 1,2% og 0,8% hækkun.