Úrvalsvísitalan fór aftur upp fyrir 3.400 stig í Kauphöllinni í dag en tólf af tuttugu félögum aðalmarkaðarins voru græn í viðskiptum dagsins. Kvika leiddi hækkanir en gengi félagsins hækkaði um 2,1% í 640 milljóna króna veltu.

Fimm Kauphallarfélög náðu sínu hæsta hlutabréfagengi frá skráningu í dag. Gengi Origo hækkaði um 1,7% í dag og náði sínu hæsta dagslokagengi í 54,3 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Marel nálgast hratt 1.000 krónur á hlut en gengi félagsins stóð í 973 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Hlutabréfagengi smásölufyrirtækjanna Festi og Haga náðu methæðum. Að lokum var gengi Skeljungs í sínum hæstu hæðum eftir 0,4% hækkun í dag.

Einungis tvö félög á aðalmarkaðnum lækkuðu í viðskiptum dagsins. Icelandair lækkaði um 2,3% og strikaði þar með út hækkun gærdagsins en gengi flugfélagsins stendur nú í 1,44 krónum á hlut. Gengi útgerðarfélagsins Síldarvinnslan féll um 1,2% eftir að hafa náð sínu hæsta stigi frá skráningu í gær. Velta með hlutabréf félaganna tveggja var þó af skornum skammti.