Kvika ásamt hópi fjárfesta hefur keypt allt hlutafé í Kortaþjónustunni hf. (Korta) og leitt hlutafjáraukningu í félaginu. Eignarhluti Kviku verður rúmlega 40% eftir viðskiptin, en  aðrir hluthafar munu eiga undir 10% hlut hver í Korta.

Korta sér um greiðslumiðlun fyrir um 2.400 fyrirtæki innanlands og utan. Félagið var stofnað árið 2002 hjá því starfa um 60 manns. Korta fékk leyfi sem greiðslustofnun frá Fjármálaeftirlitinu árið 2012 og varð í kjölfarið fullgildur aðili að VISA Europe og MasterCard International.

Haft er eftir Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku, í fréttatilkynningu að hann sjái mikla framtíðarmöguleika í Korta. „Stjórnendur Korta hafa byggt upp mjög öflugt félag á spennandi markaði, sem hefur að okkar mati mikla framtíðarmöguleika. Við hlökkum til að starfa með þeim að frekari vexti félagsins.“

Þá segir Jóhannes I. Kolbeinsson forstjóri kosta að aðkoma fjársterkra hluthafa muni efla rekstur félagsins. „Við fögnum aðkomu fjársterkra hluthafa að Korta sem mun efla rekstur félagsins. Undanfarin ár hefur vöxtur félagsins verið ör og aðkoma hinna nýju eigenda mun leggja góðan grunn að áframhaldandi traustum rekstri.“