Hlutabréf Kviku lækkaði um 1,40% við lokun Kauphallarinnar í dag og nam velta félagsins 303 milljónir króna. Eins lækkuðu hlutabréf Marel um 0,45% og er hlutabréfaverð Marel nú 442 krónur á hvern hlut.

Greint var frá því í gær að hlutabréf Play hafi aldrei verið lægri frá skráningu og hélt gengi flugfélagsins áfram að lækka. Hlutabréf Play lækkuðu um 2,08% í dag og er hlutabréfaverð félagsins nú 9,40 krónur á hvern hlut.

Gengi Hampiðjunnar lækkaði í dag á First North markaðnum um 7,46% en gert er ráð fyrir að hlutabréf fyrirtækisins verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í næsta mánuði.

Almenna útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur og hófst áskriftartímabilið kl 10:00 í morgun og stendur til 2. júní. Samþykkir Nasdaq Iceland umsókn félagsins verða hlutabréf Hampiðjunnar komin á aðalmarkað þann 9. júní nk.