KKV Investment Management, dótturfélag Kvika Securities, sem er dótturfélag Kviku banka í Bretlandi, hefur formlega gengið frá samningum um stýringu á tveimur breskum veðlánasjóðum. Samtals er hrein eign sjóðanna rúmlega £425 milljónir, andvirði um 70 milljarða króna. Þetta kemur fram í fréttatilkyningu Kviku banka.

Í lok apríl var tilkynnt um óskuldbindandi samkomulag KKV við stjórn SQN Asset Finance Income Fund um að KKV myndi taka yfir stýringu sjóðsins frá og með byrjun júní. Nú hefur verið gengið frá formlegum samningum þess efnis og verður heiti sjóðsins breytt í KKV Secured Loan Fund.

Hlutabréf sjóðsins eru eftir sem áður skráð á aðallista kauphallarinnar í London en þau hafa fallið um tæplega 57% það sem af er ársins.

Þá hefur KKV einnig tekið við stýringu veðlánasjóðsins SQN Secured Income Fund, en hrein eign sjóðsins er rúmlega £45 milljónir, andvirði tæplega 8 milljarða króna.  Hlutabréf sjóðsins eru einnig skráð í kauphöllinni í London en þau hafa fallið um rúm 10% það sem af er ársins.

,,Kvika hóf starfsemi í Bretlandi í byrjun árs 2017. Reksturinn hefur gengið vel og skilaði hagnaði á síðasta ári. Þeir nýju samningar sem KKV hefur nú gert um stýringu tveggja sjóða sem skráðir eru í Kauphöllinni í London eru því sérstaklega ánægjuleg skref fyrir starfsemi okkar í Bretlandi og fellur vel að þeirri stefnu Kviku að leggja áherslu á eigna- og sjóðastýringu,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.