*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Fólk 5. maí 2021 10:33

Kvika ræður fjóra nýja starfsmenn

Andri Stefán Guðrúnarson, Helen Ólafsdóttir, Pétur Richter og Sigurður Pétur Magnússon hafa verið ráðin til Kviku eignastýringar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Kvika eignastýring hefur ráðið til sín fjóra nýja starfsmenn; Andra Stefan Guðrúnarson, Helen Ólafsdóttur, Pétur Richter og Sigurð Pétur Magnússon. Greint er frá ráðningum þeirra í fréttatilkynningu.

Andri Stefan Guðrúnarson hefur verið ráðinn sérfræðingur innan Kviku eignastýringar. Í upphafi mun hann starfa innan fjármála- og rekstrarsviðs félagsins en síðar flytjast yfir á sjóðastýringarsvið. Andri hefur áður starfað sem sérfræðingur og sjóðstjóri innan eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka.

Andri er með BSc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MS gráðu í viðskiptafræði. Andri hefur auk þess lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Helen Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem sérfræðingur á sjóðastýringarsviði og mun koma að rekstri kredit sjóða í rekstri félagsins. Helen hefur starfað frá 2009 hjá Arion banka og Stefni, síðast sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði.

Helen er viðskiptafræðingur með MSc gráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands og B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands auk þess að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Pétur Richter hefur verið ráðinn sem fjárfestingarstjóri á framtakssjóðasviði. Hann mun koma að fjárfestingum fyrir Iðunni slhf., nýstofnuðum framtakssjóði á sviði lífvísinda og heilsutækni. Pétur hefur undanfarið unnið sem fyrirtækjaráðgjafi innan Deloitte. Áður starfaði Pétur hjá Arion banka og forverum hans í fyrirtækjaráðgjöf, fyrirtækjalausnum og markaðsviðskiptum.

Pétur er vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og MBA frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Sigurður Pétur Magnússon hefur verið ráðinn sem áhættustjóri félagsins. Sigurður hefur starfað sem sérfræðingur í áhættustýringu Arion banka frá 2015 og verið stundakennari við Háskólann í Reykjavík frá 2016 og m.a. kennt áfanga í áhættustýringu við verkfræðideild skólans.

Sigurður er með BS gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og PhD gráðu í  umhverfis- og byggingarverkfræði frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Við MIT starfaði Sigurður einnig við ýmsar rannsóknir á sviði reiknilegrar straumfræði.

„Við hjá Kviku eignastýringu erum hæstánægð með að fá til liðs við okkur þessa öflugu starfsmenn sem búa yfir mikilli reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Þetta er í takt við góðan árangur og metnað félagsins. Það eru fjölmörg tækifæri framundan og ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þau verkefni með jafn öflugum hópi og félagið býr yfir." segir Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri félagsins, í tilkynningunni.

Andri, Helen og Pétur hafa hafið störf en Sigurður hefur störf í síðari hluta maí.

Stikkorð: eignastýring Kvika