Markaðs- og mannauðssvið Kviku banka verður lagt niður í þeirri mynd sem verið hefur og verkefni sem þar hafa verið unnin færð til. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum. Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar bankans, hefur látið af störfum, en stefnt er að því að hann muni áfram vinna með bankanum að ákveðnum verkefnum.

Tilkynnt verður um nýjan framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar fljótlega, en fram til þess tíma mun forstjóri stýra rekstri sviðsins.
„Ég vil þakka því fólki sem lét af störfum í dag fyrir vel unnin störf hjá bankanum og óska þeim velfarnaðar á nýjum stöðum,“ segir Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku.

„Það er mjög leitt að kveðja gott og dugmikið fólk sem hefur unnið fyrir bankann af samviskusemi á undanförnum árum en því miður eru aðgerðir sem þessar óumflýjanlegur hluti af þeim breytingum sem fram undan eru.“