Kvika eignastýring hefur lokið við fjármögnun og stofnun nýs framtakssjóðs sem ber heitið Iðunn framtakssjóður slhf. Heildaráskriftarloforð sjóðsins nema 6,7 milljörðum króna eftir fyrstu umferð söfnunar en síðari umferð söfnunar lýkur í byrjun september nk. Kvika eignastýring greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

„Með tilkomu Iðunnar bætist nýr sérhæfður vísísjóður við íslenskan fjárfestingamarkað. Sjóðnum er ætlað að fjárfesta í og fylgja eftir mikilvægum vaxtartækifærum til lengri tíma en hingað til hefur aðgangur að fjármagni frá íslenskum fjárfestum á þessu verðmæta vaxtarskeiði fyrirtækja verið takmarkaður,“ segir í tilkynningu.

Þar segir að Iðunn muni leggja áherslu á fjárfestingar á sviði lífvísinda og heilsutækni (e. life sciences and health technology). Innan þess falli ýmis konar atvinnugreinar og svið, t.a.m. framleiðsla lækninga- og greiningatækja, lyfjaþróun, stafræn læknisþjónusta, heilbrigðisþjónusta auk stuðningsfyrirtækja í virðiskeðju eða þróun lífvísinda og heilbrigðistækni.

Fjárfestingartímabil Iðunnar sé 5 ár og einblínt verði á fjárfestingar í fyrirtækjum með vandaðar áætlanir um viðskiptaþróun, stjórnunargetu til að stýra vexti og undirbúa félögin í næsta fasa á sviði uppskölunar. Sjóðurinn leggi áherslu á að fyrirtækin sem fjárfest er í tileinki sér samfélagslega ábyrgð í daglegum rekstri, setji sér umhverfisstefnu og starfi í samræmi við góða stjórnarhætti. Hluthafar Iðunnar séu flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins.

Hilmar Bragi verður framkvæmdastjóri Iðunnar

Hilmar Bragi Janusson mun gegna starfi framkvæmdastjóra Iðunnar en hann hefur verið framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins Genís frá árinu 2017. Þá leiddi hann rannsóknar- og þróunarstarf Össurar í um 20 ár en auk þess hefur hann sinnt starfi forseta verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands ásamt stjórnarsetu í ýmsum fyrirtækjum. Hilmar lauk doktorsprófi í efnafræði og verkfræði frá Leeds háskóla árið 1992.

„Fyrir rekur Kvika eignastýring þrjá framtakssjóði, Auði I sem stofnaður var árið 2008 og er einn elsti framtakssjóðurinn á Íslandi, Eddu sem stofnaður var árið 2013 og Freyju sem stofnaður var árið 2018, en fjárfestingartímabil Freyju stendur enn yfir. Rekstur þessara sjóða hefur gengið vel og skilað fjárfestum ágætis arðsemi,“ segir í fréttatilkynningu.

„Framtakssjóðurinn Iðunn er fjórði framtakssjóðurinn í rekstri Kviku eignastýringar. Það er ánægjulegt að sjá að allir helstu fjárfestar í sjóðnum hafa jafnframt fjárfest í fyrri framtakssjóðum okkar og er það merki um tiltrú þeirra á þeim árangri sem við höfum náð sem elsti rekstraraðili framtakssjóða á Íslandi. Kvika eignastýring ætlar sér að verða leiðandi í vexti og uppbyggingu fjármálamarkaðar á Íslandi. Til viðbótar við öflugt teymi innan eignastýringar er jafnframt lögð áhersla á langtímahugsun og þannig getur fyrirtækið þjónað hagsmunum viðskiptavina sinna til skemmri og lengri tíma. Framtakssjóðir Kviku eignastýringar leggja ríka áherslu á ábyrgar fjárfestingar,“ er haft eftir Hannesi Frímanni Hrólfssyni, framkvæmdastjóra Kviku eignastýringar, í fréttatilkynningu.

„Með tilkomu Iðunnar heldur framtakssjóðasvið Kviku eignastýringar áfram þeirri þróun og því frumkvæði sem hófst með stofnun Auðar I árið 2008. Með því að leggja saman reynslu og þekkingu sem byggst hefur upp í rekstri framtakssjóða Kviku eignastýringar og þá þekkingu sem stjórn og fjárfestingateymi Iðunnar kemur með verður til sú fjárfestingaþekking sem þarf til að afla áhugaverðra fjárfestingartækifæra á sviði lífvísinda og heilsutækni auk þess að fylgja þeim eftir með virkri aðkomu og stefnumörkun,“ segir Margit Robertet, forstöðumaður framtakssjóða Kviku eignastýringar.

„Iðunn mun styðja við möguleika íslenskra fyrirtækja sem byggja á hugviti og gerir það líklegra að þekkingariðnaður sem nýtir starfskrafta vel menntaðs og sérþjálfaðs fólks á Íslandi verði sú stoð innan íslensk efnahagslífs sem væntingar eru um. Mikil gróska á undanförnum árum í greinum lífvísinda og heilbrigðistækni hefur getið af sér fyrirtæki og vöruhugmyndir sem líkleg eru til þess að verða að burðugum fyrirtækjum í þessum greinum, sé þeim sköpuð skilyrði til vaxtar og uppskölunar. Slíkt væri í samræmi við stefnumörkun og væntingar í íslensku samfélagi sem varið hefur umtalsverðum fjármunum í menntun, rannsóknir og þróun á síðastliðnum áratugum,“ segir Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri Iðunnar, í fréttatilkynningu.