Samstæða Kviku banka hefur bætt við sig skrifstofuhúsnæði á þremur hæðum til viðbótar í skrifstofuturninum að Katrínartúni 2 og verður því alls með aðstöðu á sex hæðum í húsinu. Gengið hefur verið frá nýjum og lengri leigusamningi þess efnis við Reginn, eiganda hússins, samkvæmt uppgjöri Regins sem birt var í gær.

Stefnt er að því að starfsemi TM og dótturfélagsins Lykils verður flutt úr Síðumúla 24 í Katrínartún 2 á nýju ári. Þar með verður öll starfsemi Kviku banka á einum stað.

Í sumar var húsnæði TM að Síðumúla 24 auglýst til leigu. TM hefur verið með skrifstofu í Síðumúla frá árinu 2008 en húsnæðið er í eigu BYGG.

Samstæða Kviku hefur stækkað töluvert að undanförnu. Kvika sameinaðist TM og Lykli fyrra á árinu , gekk frá kaupum á Netgíró og Aur og nú síðast keypti það fasteignafélagið Ortus Secured Finance á Bretlandi.

Yfir 330 starfa hjá sameinuðu félagi. Í upphafi þessa árs, fyrir sameiningarnar, störfuðu 160 hjá Kviku banka en samanlagt 179 hjá TM, Lykli, Aur og Netgíró.