Kvika banki hf. var í Hæstarétti í dag sýknað af kröfu ET sjónar ehf. um viðurkenningu á bótaskyldu vegna ófullnægjandi vinnubragða Auðar Capital hf. í tengslum við fjárfestingu ET í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.

Málið átti rætur að rekja til kaupa Eignarhaldsfélagsins Þorgerðar ehf. á 36% hlut í Ölgerðinni árið 2010 og níu prósentum til viðbótar tveimur árum síðar. ET Sjón var einn þriggja hluthafa í Þorgerði, sem Auður Capital hafði stofnað til að standa að kaupunum, en Kvika hefur nú tekið yfir Auði.

ET taldi sig hafa orðið fyrir tjóni við kaupin vegna ófullnægjandi undirbúnings og ráðgjafar Auðar. Annars vegar hafi í ráðgjöf Auðar ekki verið gætt að atvikum sem síðar leiddu til þess að ríkisskattstjóri tók opinber gjöld Ölgerðarinnar til endurskoðunar í desember 2013. Sú endurskoðun leiddi til þess að gjaldfærður fjármagnskostnaður félagsins, eftir samruna þess við Límonaði ehf. og Daníel Ólafsson ehf., hafi að hluta ekki fullnægt skilyrðum fyrir frádráttarbærni samkvæmt tekjuskattslögum. Sú hækkun nam rúmlega milljarði.

Í annan stað hafi ekki verið litið til fjármögnunarleigusamninga milli Ölgerðarinnar og Lýsingar hf. þar sem greiðslur í íslenskum krónum hafi verið tengdar við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi samningar hafi verið dæmdir lögmætir með dómi Hæstaréttar árið 2014 en Ölgerðin hafði byggt á að svo væri ekki þegar af fyrrnefndum varð.

Deilt var um það hvort samningssamband hefði verið milli Auðar og ET Sjónar þegar kaupin voru gerð, í annan stað hvort starfsmenn Auðar hafi sýnt af sér gáleysi svo skaðabótaskyldu varði og í þriðja lagi hvort ET Sjón hefði orðið fyrir tjóni. Þá var að auki ágreiningur um hvort ET Sjón hefði átt sök í tjóninu þannig að það ætti að hafa áhrif á bótarétt félagsins og að endingu hvort ET Sjón hefði sýnt af sér tómlæti við að sækja rétt sinn.

Óskiljanleg álitsgerð endurskoðanda

ET Sjón höfðaði árið 2016 mál vegna þessara atvika og krafðist skaðabóta að fjárhæð rúmlega 300 milljón krónur. Sakarefni málsins var skipt í héraði og í upphafi aðeins deilt um tilvist bótaskyldunnar. Í dómi Hæstaréttar var vikið að því að krafa ET Sjónar um skaðabætur hafi einvörðungu verið studd við álitsgerð endurskoðanda sem hafi verið aflað einhliða.

„Sú álitsgerð var reist á nánast óskiljanlegum forsendum, sem [ET Sjón] hefur á engan viðhlítandi hátt útskýrt nána í héraðsdómstefnu eða öðrum málatilbúnaði sínum,“ segir í dómi Hæstaréttar. Ekki væri unnt að komast undan áhrifum slíkrar vanreifunar. Þar sem Kvika hefði ekki krafist frávísunar, heldur tekið til efnislegra varna, var málinu ekki vísað frá.

Að mati Hæstaréttar var í gildi samningur milli aðila um að veita ráðgjöf við kaupin þó ekki hefði hann verið skjalfestur. Þá var vikið að því að lög og skráðar reglur hefðu ekki að geyma afmörkun á því hvað áreiðanleikakönnun á félagi í atvinnurekstri hafi að geyma. Ekki var heldur byggt á því að venja hafi verið til staðar.

„Þótt starfsmaður Auðar Capital hf., [...], muni sem áður segir hafa látið þess getið í tölvubréfi til [forsvarsmanns ET Sjónar] að þá stæði yfir viðskipta- og lögfræðileg áreiðanleikakönnun á Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni ehf. verður ekki fram hjá því horft að þetta orðalag gat ekki talist gefa til kynna að hverju könnunin lyti nánar. Að þessu öllu virtu er ekki unnt að líta svo á að Auður Capital hf. hafi gefið [ET Sjón] nokkurt tilefni til að treysta á að horft yrði í áreiðanleikakönnun til þeirra tveggja sérhæfðu atriða sem að framan getur,“ segir í dómnum.

Var Kvika af þeim sökum sýknað af kröfu ET Sjónar. Síðarnefndi aðilinn var dæmdur til að greiða hinum fyrrnefnda 1,5 milljón í málskostnað fyrir Hæstarétti.