Kvika fjárfestingarbanki var umsvifamest í viðskiptum í Kauphöll Íslands Nasdaq Ísland á síðasta ári.

Af 4.772 milljarða króna heildarviðskiptum á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði í Kauphöll Íslands árið 2015 nam heildarvelta Kviku 1.268 milljörðum króna, eða um 27% af heildarviðskiptum ársins.

Mikil skipti á skuldabréfum

Kvika átti mest viðskipti á markaðnum með skuldabréf á árinu sem leið, en velta fjárfestingabankans með skuldabréf nam rétt tæplega 1.115 milljörðum króna. Það er um það bil 28% af allri veltu skuldabréfa í Kauphöllinni.

Með næstmesta veltu er svo Landsbankinn, með 821 milljarð króna og 20,58% markaðshlutdeild, og í því þriðja er Arion banki, með 784 milljarða króna og 19,65% markaðshlutdeild.

Alls var velta með skuldabréfaviðskipti 3.991 milljarður króna á árinu 2015. Mest var veltan í nóvember, eða um 464 milljarðar króna.

Landsbankinn með mestu veltuna

Hvað hlutabréfaviðskipti varðar var Landsbankinn með mestu umsvifin, eða um 26,3% hlutdeild og 205 milljarða króna veltu. Þar á eftir kemur Arion banki, með 23% hlutdeild og 179 milljarða króna veltu. Þriðja sætið vermir þá Kvika, með 20% hlutdeild og 153 milljarða króna veltu.

Alls var velta með hlutabréfaviðskipti 780 milljarðar króna á árinu 2015. Mest var veltan í október, eða um 115 milljarðar króna.