Verslanir sem hingað til hafa verið reknar undir merkjum 10-11 við bensínstöðvar Skeljungs, munu fá nafnið „Kvikk on the go“. Veitingakeðjur á borð við Ginger, Bad Boys Burger, Sbarro og Te og kaffi verður að finna á nokkrum stöðvanna. Þá er unnið að því að setja upp skápa í verslunum þar sem viðskiptavinir geta sótt vörur sem pantaðar eru á netinu. Breytingarnar ná til tólf verslana sem Basko, eigandi 10-11, rekur í samstarfi við Skeljung á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og á Akranesi.

„Þetta eru umtalsverðar breytingar. Fólk á eftir að sjá það bæði á vöruúrvalinu og framboðinu, sem og verði,“ segir Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Skeljungs. Breytingaferlið við bensínstöðvarnar hafi hafist á síðasta ári þegar notkun á nafni Skeljungs við bensínstöðvar var hætt og þeim öllum breytt í sjálfsafgreiðslustöðvar Orkunnar.

Skápar sem létti fólki lífið

Viðskiptavinir muni sjá nokkrar breytingar á verslununum. „Við einföldum vöruúrvalið. Fólk mun verða vart við „kombó“ tilboð. Þannig að þú veist hvað þú munt fá og það verður á dúndurgóðu verði,“ segir Þórður.

„Þetta mun passa betur við Orku vörumerkið okkar þar sem við erum með ódýrasta bensínverðið á ansi mörgum stöðum á landinu.“

Skápar þar sem viðskiptavinir geti nálgast vörur sem pantaðar eru á netinu, verði til að byrja með að finna í tveimur stöðum. „Við erum að setja upp samskonar skápa og flestir þekkja frá

Amazon erlendis. Við byrjum með skápana á tveimur stöðvum. Ef það gengur vel munum við þá setja upp 22 skápa víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórður.

Markmiðið sé að viðskiptavinir geti sótt vörur á einum stað. „Staðsetningar stöðvanna eru gríðarlega góðar, í flestum tilfellum við stofnæðar um land allt. Það sem við erum að horfa í þarna er að við viljum létta fólki lífið, þannig að það geti komið inn á þessar stöðvar til og frá vinnu eða tómstundum og geti nálgast hluti á einum stað í stað þess að þurfa að fara á þrjá, fjóra, fimm staði víðs vegar um bæinn.“

Verslunum breytt fyrir jól

Þórður segir stefnt á að breyta tólf verslunum í Kvikk on the go ásamt því að koma upp skápum á tveimur stöðum fyrir jól. „Við erum að vonast til að ná skápunum inn í háannatímann sem er jólanetverslunin. Við munum fínpússa það ferli og í kjölfarið verður þeim komið upp á öðrum stöðvum fyrir næsta sumar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað um umfangsmestu skattsvik í sögu Evrópu.
  • Viðtal við verkalýðsforkólfa um stöðu kjarasamninga.
  • Úttekt á hækkun verðs á atvinnuhúsnæði.
  • Viðtal við Jón Þór Gunnarsson, forstjóra Arctic Adventures.
  • Umfjöllun um frumkvöðlakeppnina Gulleggið.
  • Þemasíða um bíla fylgir blaðinu.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um ógeðfellda orðræðu.