Bandaríska kvikmyndin Contraband, sem leikstýrt er af Baltasar Kormák, halaði inn rúmum 24 milljónum dala, sem samsvarar 3 milljörðum króna yfir helgina og var tekjuhæsta mynd vestra um þessa helgi. Myndin er eftirgerð íslensku spennumyndarinnar Reykjavík-Rotterdam og var gerð í Hollywood.

Contraband var frumsýnd á föstudag og ef fram heldur sem horfir mun hún fljótlega ná upp í 41 milljóna dala framleiðslukostnað.

Á mbl.is er haft eftir Evan Hayes, kvikmyndaframleiðanda hjá Working Titles, sem framleiðir Contraband, að menn þar á bæ séu mjög ánægðir með frammistöðuna og að áhorfendum þyki myndin fersk og skemmtileg. Þá dragi það einhverja að myndinni að hún er endurgerð á íslenskri kvikmynd.