Vinsældir kvikmyndarinnar John Carter, sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum um allan heim, hafa verið langt undir væntingum framleiðandans Walt Disney. Búist er við að tap Disney vegna myndarinnar verði um 200 milljónir dollara, jafnvirði um 25 milljarða króna. Það yrði eitt stærsta tap kvikmyndasögunnar.

Heildartap á þessum ársfjórðungi er áætlað á bilinu 80 till 120 milljónir, samkvæmt frétt BBC um málið. Hlutabréfaverð í Disney lækkaði um 1% eftir lokun markaða í gær.

John Carter kostaði um 250 milljón dollara í framleiðslu og líklegt þykir að um 100 milljónum til viðbótar hafi verið eytt við markaðssetningu. Viðtökur hafa hins vegar verið misjafnar og miðar hafa verið seldir fyrir um 184 milljónir dollara á myndina. Þar af fá kvikmyndahús um helming þeirrar upphæðar.