Kvikmynd um kynlífsfíkil sem ræðst á hótelþernu í New York var forsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes um helgina. Breska blaðið Independent greinir frá þessu .

Lögmaður Dominique Strauss-Kahn fyrrverandi forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að myndin byggist á ásökunum sem bornar voru á Strauss Kahn árið 2011. Hann ætli að kæra kvikmyndaframleiðandann þar sem hún er ærumeiðandi fyrir fyrrum forstjórann.

Framleiðendurnir segja hins vegar að myndin sé byggð á skáldskap.

Franski leikarinn Gerard Depardieu, sem fyrir rúmu ári flutti lögheimili sitt frá Frakklandi til Rússlands vegna ofurskattlagningar á hálaunafólk , leikur aðalhlutverkið í myndinni sem heitir Velkominn til New York.

Sumarið 2011 sakaði hótelþerna á Sofitel hótelinu í New York Strauss Kahn um nauðgun. Málinu var vísað frá. Strauss-Kahn lét af störfum hjá AGS vegna málsins og hætti við fyrirhugað framboð í forsetakosningunum í Frakklandi 2012.