Framleiðslufyrirtæki kvikmyndaleikstjórans Ridley Scott mun taka þátt í framleiðslu kvikmyndar um leiðtogafundinn í Höfða sem haldinn var í október 1986 og markaði upphafið að endalokum kalda stríðsins. Að gerð myndarinnar standa reynslumiklir Hollywood-framleiðendur og pólitískir ráðgjafar.

Í tilkynningu vegna gerð myndarinnar segir að hún muni fjalla um hið magnþrungna andrúmsloft í kringum leiðtogafundinn  þar sem Ronald Reagan Bandaríkjaforseti krafðist þess af Mikhail Gorbatsjov, leiðtoga Sovétríkjanna, að „múrar kalda stríðsins yrðu brotnir niður“. Kvikmyndin mun einnig draga upp nærmynd af leiðtogunum tveimur sem hrundu af stað atburðarás sem leiddi til umfangsmikillar eyðingar kjarnavopna, hruns Sovétríkjanna og endaloka kalda stríðsins.

Ridley Scott er í hópi helstu kvikmyndaleikstjóra samtímans. Hann hefur þrisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna; fyrir myndina Black Hawk Down 2002 sem hlaut tvenn verðlaun, fyrir bardagamyndina Gladiator 2001 sem hlaut fimm verðlaun og loks fyrir Thelma and Louise 1992 þar sem Susan Sharandon og Geena Davis fóru með aðalhlutverkin. Nýjasta mynd Scotts, American Gangster með Denzel Washington og Russell Crowe í aðalhlutverkum, hefur hlotið lof gagnrýnenda sem ein besta kvikmynd ársins 2007.

Framleiðsla kvikmyndarinnar um leiðtogafundinn í Höfða er í höndum framleiðslufyrirtækjanna ScottFree Productions og Sennet-Sheftell. Meðal annarra framleiðenda má nefnda Ken Adelman, sérfræðing í utanríkismálum og samningamann í liði Ronalds Reagans í Höfða, og Jere Sullivan, aðstoðarforstjóra Edelman í Evrópu, en Edelman er stærsta óháða almannatengslafyrirtæki heims. Þá er ótalinn áhættufjárfestirinn Craig Sheftell frá Fallbrook Capital en hann mun annast fjáröflun vegna myndarinnar.

„Þetta er afar áhugavert verkefni en fjallað verður um atburð sem hratt af stað atburðarás sem leiddi til endaloka kalda stríðsins,“ segir Ridley Scott. „Myndin mun einnig veita einstæða innsýn í aðalpersónurnar, þá Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjov, þessa regnköldu októberdaga í Reykjavík.“

„Þar sem ég var þátttakandi í afvopnunarviðræðunum og í beinu sambandi við Ronald Reagan fékk ég einstakt tækifæri til að taka þátt í sögulegum viðburði sem var mjög skemmtilegt,“ segir Ken Adelman og bætir við: „En mest gefandi var sennilega að upplifa frá fyrstu hendi þá sannfæringu Ronalds Reagans að eyða skyldi öllum kjarnorkuvopnum heimsins og þá miklu áherslu sem hann lagði á að binda endi á kalda stríðið.“

Unnið er að því að fá reynda höfunda til að klára handrit myndarinnar auk þess sem unnið er að samningum við leikstjóra, meðal annarra Ridley Scott. Áætlanir gera ráð fyrir að tökur hefjist um mitt þetta ár og verði lokið fyrir áramót, segir í tilkynningunni.