Reykjavík International Film Festival, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, hefst í dag, fimmtudag, í tíunda sinn. Hátíðin stendur yfir í ellefu daga. Á boðstólum eru hátt í hundrað myndir í fullri lengd auk fjölda stuttmynda.

Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, er kynningarstjóri RIFF. Hann segir áhuga á hátíðinni hafa farið vaxandi til þessa, miðasalan aukist ár frá ári og það sé „stigvaxandi fílingur“. Doktorinn segir að ekki sé stefnt að neinu ákveðnu markmiði í miðasölu í ár, en í fyrra hafi mikil ánægja ríkt með 30.000 seld sæti.

„Það er auðvitað ekki hægt að sjá allt, það er svo rosalegt framboð af áhugaverðu stöffi,“ segir Dr. Gunni um framboðið. Spurður um ráð fyrir gesti hátíðarinnar, og hvernig best sé að velja kvikmyndir til að sjá, segir hann nauðsynlegt að skipuleggja sig. „Þú verður að ákveða hvað á að sjá margar myndir í ár og saxa svo niður. Það er til dæmis gott að taka frí frá vinnu og undirbúa sig,“ segir hann í gamansömum tón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .