Fyrirtækið Kvikna ehf. hlaut í dag Vaxtarsprotann 2015 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Sölutekjur fyrirtækisins jukust úr tæplega 124 m.kr. í rúmlega 209 m.kr. eða um 69%. Á sama tíma hefur starfsmannafjöldinn vaxið úr 12 í 15 og útflutningur nemur yfir 90% af veltu.

Kvikna var stofnað síðla árs 2008 af þeim Garðari Þorvarðssyni, Heiðari Einarssyni, Guðmundi Haukssyni og Hjalta Atlasyni en seinna bættist Stefán Péturrsson við sem meðeigandi. Kvikna sérhæfir sig í gerð lækningatækja og hugbúnaðar sem krefst mikillar tæknilegrar þekkingar. Fyrirtækið býður upp á hugbúnaðarþjónustu auk þess að þróa eigin vörur.

Fyrirtækin Valka, hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun á tækjum og hugbúnaði fyrir fiskvinnslur, og Meniga, sem sérhæfir sig í lausnum fyrir næstu kynslóð netbanka, fengu einnig viðurkenningar. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra afhenti fulltrúum fyrirtækjanna þær í Grasagarðinum, Laugardal í morgun.

Meniga náði þeim áfanga að velta meira en einum milljarði kr. á árinu 2014. SI veita sprotafyrirtækjum sem ná þessum áfanga sérstaka viðurkenningu til að fagna þeim fyrirtækjum sem komast í úrvalsdeild íslenskra tækni- og nýsköpunarfyrirtækja. En til gamans má geta að Meniga var handhafi Vaxtarsprotans 2013.

Um Vaxtarsprotann

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka sprotafyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Þetta er í núunda skiptið sem Vaxtarsprotinn er afhentur en hann hefur verið veittur árlega frá árinu 2007. Það ár hlaut Marorka vaxtarsprotann, Mentor 2008 og 2009, Nox Medical 2010, Handpoint 2011, Valka 2012, Meniga 2013 og Datamarket 2014.

Árlega hafa verið veittar viðurkenningar fyrir öflugan vöxt milli tveggja síðustu ára en viðurkenningunum er skipt í tvo flokka. Í 2. deild, þ.e. flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir og 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir.

Ekkert fyrirtæki í 2. deild náði að uppfylla viðmið dómnefndar á síðasta ári, þrátt fyrir margar ábendingar og tilnefningar. En í 1. deild fékk fyrirtækið Valka viðurkenningu auk Kvikna.