Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að bú einstaklings verði tekið til gjaldþrotaskipta þrátt fyrir að birting greiðsluáskorunar hafi verið undarleg. Umrædd áskorun var birt fyrir einstaklingi sem var sérstaklega kvaddur á staðinn til að kvitta undir birtingarvottorð.

Krafan um þrotaskiptin var gerð af hálfu ríkisskattstjóra (RSK) vegna ógreiddra gjalda að fjárhæð 8,3 milljónir króna. RSK fékk því birta greiðsluáskorun til mannsins á lögheimili hans. Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti ber að birta slíka áskorun eftir þeim reglum sem lög um meðferð einkamála kveða á um.

Einkamálalögin kveða á um að stefna skuli að jafnaði birt fyrir stefnda sjálfum á lögheimili hans, þar sem hann hefur fasta búsetu, dvalarstað eða vinnustað. Einnig er heimilt að birta stefnuna á lögheimili fyrir heimilismanni, einhverjum sem dvelst á lögheimili og að endingu til þrautavara fyrir þeim sem þar hittist fyrir.

Stefnuvottur kom að heimili mannsins í janúar. Á stefnuvottorðið kvittaði kona sem hafði verið „tilkvödd“ til þess eins að skrifa undir stefnuvottorðið. Umrædd kona hafði farið með stefnuvottinum að heimili mannsins en það kom fram í tölvupóstssamskiptum sem hún átti við lögmann mannsins. Eftir að hafa kvittað á vottorðið kom hún stefnunni fyrir í póstkassa mannsins.

Í fyrra ómerkti Landsréttur dóm héraðsdóma í útivistarmáli þar sem ekki var staðið rétt að birtingu ákæru. Í því máli var ákæran birt lögreglumanni sem hafði engin tengsl við ákærða og var eingöngu á staðnum til að birta plaggið. Þótti skilyrði sakamálalaganna, um að slíkur einstaklingur skuli koma afriti af ákæru til ákærða eða einhverjum sem líklegur þykir til að koma henni til skila, ekki uppfyllt og dómurinn því ómerktur.

Í málinu nú þóttu skilyrði einkamálalaganna hins vegar uppfyllt. Samkvæmt þeim ber einstaklingi, sem tekur við stefnu með þessum hætti, að koma samriti í hendur stefnda. Þótti það að koma stefnunni fyrir í póstkassanum fullnægjandi og því ekki fallist á kröfu mannsins um að fella úrskurðinn úr gildi.