Dómur Hæstaréttar sem gerði útaf við langt komin áform um byggingu hótels við Hallarmúla 2 kostaði lánardrottna HM2 Hótela ehf., Landsbankann og seljanda lóðarinnar, mörg hundruð milljónir króna hvert.

Bankinn hafði lánað félaginu, sem var í eigu fjárfestanna Fannars Ólafssonar og Andra Gunnarssonar, 700 milljónir króna fyrir kaupunum á lóðinni og meðfylgjandi fasteign í apríl 2018. Á móti lánaði seljandinn, félagið HM2 ehf., kaupendunum 300 milljónir og nam kaupverðið því alls milljarði króna.

Tölvu- og tækjaverslunin Tölvutek var þá til húsa í byggingunni, en í desember sama ár var breytt deiliskipulag fyrir reitinn kynnt, og fól þá í sér heimild til að reisa þar allt að fimm hæða hótel og fjarlægja bílastæði á lóðinni gegn byggingu bílakjallara.

Mistök sýslumanns frá 1993 leiðrétt
Við þetta voru nágranninn við Suðurlandsbraut 2, Hilton Nordica hótelið og lóðareigandinn Reitir – hótel ehf., hins vegar ekki sáttir. Höfðað var dómsmál þar sem þess var krafist að gömul kvöð á Hallarmúlalóðinni frá 1975, sem hafði verið aflýst fyrir mistök árið 1993, yrði endurvakin.

Samkvæmt henni einskorðaðist leyfileg starfsemi á lóðinni við sölu bifreiða og bifreiðavarahluta „enda brjóti sú starfsemi ekki í bága við rekstur hótelsins eða eiganda þess“, en á því herrans ári 1975 stóð þar hinn svokallaði Ford-skáli.

Héraðsdómur féllst ekki á kröfur Reita, en það gerði hins vegar Landsréttur, og Hæstiréttur var á sama máli . Kvöðin var því látin standa og færð í þinglýsingarbækur sýslumanns á ný eftir hátt í 30 ára fjarveru.

Hið nýja hótel var þar með kæft endanlega í fæðingu, og stjórn HM2 Hótels taldi það ekki svara kostnaði að eiga og reka fasteignina við Hallarmúla áfram með þeim skorðum sem kvöðin setti þeim.

Lítil hjálp í aukinni veðsetningu
Stuttu seinna fékk Landsbankinn veð í fasteigninni á öðrum veðrétti fyrir 225 milljónir til viðbótar við hinar upphaflegu 700 sem tryggingu fyrir öllum skuldum félagsins við bankann, enda áfallnir vextir af þeirri skuld þá komnir yfir 130 milljónir króna, og eigið fé HM2 hótels orðið neikvætt um vel yfir 100.

Lítil trygging reyndist hins vegar fólgin í þeim gerningi. Eftir dóm Hæstaréttar er ljóst að virði lóðarinnar við Hallarmúla er annað og minna en áður var talið. Fátt annað var því í stöðunni fyrir félagið og bankann en að bjarga því sem bjargað yrði og leggja svo félagið niður.

Sumarið 2021 var eignin við Hallarmúla 2, eina eign HM2 hótels, seld til Reita fyrir 540 milljónir króna í samráði við veðhafann, sem gefa þurfti eftir 385 milljónir af veðsettu virði. Hin upphaflega 700 milljóna króna skuld var í árslok 2020 komin yfir 920 milljónir króna, svipaða upphæð og eignin var þá veðsett fyrir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .