Orka heimilanna hefur lagt inn formlegt erindi til Samkeppniseftirlitsins vegna meintra ólöglegra viðskiptahátta Orkusölunnar. Frá þessu greinir Orka heimilanna í fréttatilkynningu. Sakar fyrirtækið Orkusöluna um brot á 11. gr. samkeppnislaga.

Sjá má fréttatilkynninguna í heild hér að neðan:

Frá því að Orka heimilanna hóf starfsemi höfum við tekið við viðskiptavinum um allt land en fljótlega kom í ljós að Orkusalan setti sig í samband við þá viðskiptavini sem voru að fara frá þeim og buðu þeim betri kjör gegn því að koma aftur til þeirra, segir í fréttatilkynningu.

Viðskiptavinir Orku heimilanna koma frá öllum landshornum og frá öllum dreifisvæðum. Við urðum vör við það strax í upphafi að Orkusalan hringir í þá viðskiptavini sem þeir hafa misst og bjóða þeim frían mánuð og 10-15% afslátt komi þeir aftur í viðskipti við Orkusöluna. Með þessu grípur Orkusalan til sértækrar verðlækkunar sem stendur aðeins þeim fáu til boða sem eru að fara úr viðskiptum frá þeim. Orka heimilanna telur að þarna sé um að ræða skýrt brot á 11 gr. samkeppnislaga nr. 4/2005. Vegna þessa hefur Orka heimilanna sent inn erindi til Samkeppniseftirlitsins og vonast eftir að eftirlitið taki það til rannsóknar og hefji málsmeðferð.

Okkur finnst þetta mjög sérstakir viðskiptahættir hjá Orkusölunni, fyrir utan að vera ólöglegir, að verið sé að veðlauna þá sem fara úr viðskiptum en traustir viðskiptavinir Orkusölunnar sem hafa jafnvel verið hjá þeim í áratugi greiði fullt uppsett verð og standa ekki sömu kjör til boða.

Við gildistöku raforkulaga fékk Orkusalan alla viðskiptavini á dreifiveitusvæði Rarik í forgjöf. Eftir það hefur Rarik sett alla nýja viðskiptavini á sínu dreifisvæði í viðskipti við Orkusöluna án þess að hafa samband við viðskiptavini og benda þeim á aðra söluaðila eins og gerð er krafa um samkvæmt raforkulögum. Þetta hefur Orka heimilanna áður gert athugasemdir við og er von á niðurstöðu frá Orkustofnun fljótlega.