Kvos hf. er nú alvarlega að skoða frekari kaup á prentsmiðjurekstri í Austur-Evrópu en félagið rekur nú stærstu prentsmiðjur Búlgaríu og Rúmeníu. Að sögn Birgis Jónssonar, framkvæmdastjóra erlendrar starfsemi Kvosar, er félagið nú að skoða möguleg kaup í Ungverjalandi og Serbíu fyrir utan ný viðskiptatækifæri í Búlgaríu og Rúmeníu. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.

"Við höfum gefið upp að við höfum áhuga á að stækka frekar á þessu svæði og þegar það fréttist berast til okkar allskonar tilboð. Við skoðum alla möguleika til samþættingar," sagði Birgir en félagið hefur gefið út að áform þess standi til að verða stærst á sviði prentsmiðjurekstrar í Austur-Evrópu innan tveggja til þriggja ára.

Kvos er nú með mikla starfsemi í Rúmeníu og Búlgaríu og starfa 800 manns hjá félaginu í þessum löndum. Áætlanir gera ráð fyrir að velta þessara félaga verði um 70 milljónir evra á þessu ári, eða ríflega sex milljarðar króna. Að sögn Birgis flytur félagið nú þegar mikið af framleiðslu sinni út til Ungverjalands enda séu markaðir þessara landa nátengdir. Þess til viðbótar er fyrirtækið með blaðaprentun í Póllandi en velta þar er miklu minni eða um ein milljón evra.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.