Niðurstaða alþjóðlegrar rannsóknar er að það að gefa veiðimönnum langtímaleyfi til fiskveiða er lykillinn að því að koma í veg fyrir að útgerðarfyrirtæki fari á hausinn. Útgerðarfyrirtæki sem búa við kerfi þar sem ákveðnir veiðimenn eiga rétt á að veiða ákveðið magn úr stofninum er samkvæmt niðurstöðunum helmingi ólíklegri til að hrynja en önnur. Í frétt BBC er Ísland nefnt sem eitt þeirra landa sem eru langt komin í þróun kvótakerfis.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtast í tímaritinu Science, aðeins einum degi eftir að Evrópuráðið tilkynnti um endurskoðun fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Í frétt BBC er haft eftir yfirmanni í fiskveiðinefnd Evrópuráðsins að innleiðing kvótakerfis sé vissulega til skoðunar innan ESB.

„Þegar allir hafa aðgang að fiskimiðunum fara menn í kapphlaup á miðin sem leiðir til þess að sum félögin fara á hausinn,“ sagði formaður rannsóknarinnar, Cristopher Costello frá háskólanum í Kaliforníu. „En þegar þú úthlutar kvótanum fyrirfram er kominn hvati til sjómanna til að veiða hann á sem hagkvæmastan hátt.“

Rannsóknarnefndin kannaði gögn frá 11.135 útgerðum víðs vegar um heiminn og tók út úr könnuninni 121 útgerð sem er stýrt með kvótakerfi líkt og er á Íslandi eða svipuðu kerfi.

Hugmynd nefndarinnar hefur mætt nokkurri gagnrýni fyrir að henta þróunarríkjunum illa þar sem fiskveiðar þar eru yfirleitt stundaðar af mun fleira fólki en annars staðar í minni bátum. Costello segir þó vera hægt að leysa þetta vandamál.

„Mörg þróunarríki skipta ákveðnum hlutum strandlengjanna milli samfélaga, þannig að það myndast hvati til að viðhalda stofninum. Þetta er t.d. gert í Chile og sums staðar í Afríku,“ segir Costello.

Tölur frá Sameinuðu Þjóðunum sýna að þriðjungur fiskistofna heims eru minni en 10% af upphaflegri stærð sinni. Í frétt BBC um málið er bent á að kvótakerfi líkt og nefnd Costello leggur til sé hvað þróaðast á Íslandi, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Einnig séu Bandaríkin á góðri leið með að innleiða slíkt kerfi.

BBC greindi frá þessu.