Arðsemi í sjávarútvegi hefur aukist frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem í daglegu tali er kallað kvótakerfið, var sett á árið 1984.

Meðal-EBITDA (rekstrarhagnaður) sjávarútvegsfyrirtækja var á árunum 1980-84 um 7% en hækkaði í 15% á árunum 1984-92. Frá því að lög sem leyfðu fullt framsal kvóta milli félaga tóku gildi árið 1991 hefur meðal-EBITDA verið um 21%.

Þetta ern meðal þess sem kemur fram í ítarlegri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg sem kom út á fimmtudag og fjallað var um í úttekt í Viðskiptablaðinu.

Árið 1983 voru rétt rúmlega 100 togarar gerðir út frá íslenskum höfnum en árið 2012 eru gerðir út 57 togarar hér á landi. Skýrsluhöfundar rekja fækkun síðustu 20 ára til aukinnar hagræðingar í greininni, minni aflaheimilda og afkastameiri skipa.

Í skýrslunni kemur einnig fram að íslenski fiskiskipaflotinn hefur dregist saman undanfarinn áratug, bæði hvað varðar fjölda skipa og brúttótonn. Fjöldi skipa hefur dregist saman um 17% frá árinu 2000. Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í lok árs 2011, 375 skip, sem er um 23% fiskiskipastólsins. Næstflest, alls 308, voru með heimahöfn skráða á Vesturlandi eða tæp 19%. Fæst skip voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, alls 77, en það samsvarar um 5% af heildarfjölda fiskiskipa.

Skipting aflamarks eftir landshlutum gefur þó aðra mynd. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er Norðurland eystra með 20% hlutdeild aflamarks en höfuðborgarsvæðið með 15%. HB Grandi, Samherji, Þorbjörn, FISK-Seafood og Brim eru fimm stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, miðað við úthlutun kvóta. Stærstu 10 fyrirtækin eru með tæp 52% úthlutaðra aflaheimilda og stærstu 20 fyrirtækin um 71%.