*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 28. janúar 2021 07:12

Kvótasetning makríls hélt í héraði

Í niðurstöðu dómsins segir að löggjafinn hafi staðið frammi fyrir vandasamri stöðu og viðbúið að allir hefðu þurft að taka á sig skerðingu.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Í slenska ríkið var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær sýknað af viðurkenningarkröfu Félags makrílveiðimanna (FM) um að óheimilt hefði verið að takmarka heimildir félagsmanna til veiða á makríl með lagabreytingu á úthafsveiðilögunum.

Lagasetningin, sem var viðbragð löggjafans við makríldómum Hæstaréttar í desember 2018, fól í sér hálfgerðan salómonsdóm en við kvótasetninguna var miðað við veiðireynslu áranna 2008-2018. Hefði verið miðað við veiðireynslu ársins 2011 hefðu stærstu skipin, sem stunduðu ólympískar veiðar áður en til veiðistjórnunar kom, fengið rúm 97% kvótans. Fylgni við óbreytt lög hefði þýtt að stærstu skipin hefðu fengið um 83% kvótans. Á endanum var ákveðið að fara hálfgerðan milliveg. Skaðabótamál tveggja útgerða eru enn til meðferðar í héraði vegna hins ólögmæta fyrirkomulags.

FM var stofnað í byrjun árs 2017 en tilgangur þess er að gæta hagsmuna útgerða sem veiða makríl á minni skipum og bátum. Sú leið, að miða við tíu bestu árin af síðustu ellefu, þýddi að hlutdeild félagsmanna FM í kvótanum varð rúmlega 1,9%. Hefði verið miðað við hina almennu meginreglu, þrjú bestu árin af síðustu sex, hefðu tæplega 3,6% kvótans komið í þeirra hlut. Áhrifin á ísfiskiskip og krókaskip urðu þau, milli veiðiáranna 2018 og 2019, að aflamarkið varð um 59% af því sem það hafði verið árið á undan. 

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að „löggjafanum hafi vissulega verið sérstakur vandi á höndum“. Ástæða þess var að makríldómar Hæstaréttar fólu í sér að rétt hefði verið að kvótasetja tegundina strax árið 2011 á grundvelli fyrrgreindrar meginreglu. Hefði niðurstaðan verið sú að miða við veiðireynslu áranna 2013-2018 hefði enn fremur verið viðbúið að það hefði skapað ríkinu áframhaldandi bótaskyldu.

„Verður ekki annað séð en að löggjafinn hafi í þeirri stöðu leitast við að skapa að nýju jafnvægi í þeirri stöðu sem upp var komin með samfélagsleg sjónarmið að leiðarljósi. Má telja ljóst að allir hlutaðeigandi haghafar þurftu þá að þola skerðingar með hliðsjón af þeirra ýtrustu væntingum til hlutdeildar í takmörkuðum gæðum,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Makríll Makríll Makríll