Kvótaverð hefur hækkað mjög hratt á undanförnum mánuðum. Í mars síðastliðnum var verðið 1.175 krónur á hvert þorskkíló en það er núna komið upp í 1.500 krónur sem er geysilega hátt í sögulegu ljósi. Þessi hækkun rímar ágætlega við þróun á öðrum eignamörkuðum á Íslandi sem hafa hækkað mikið á undanförnu misserum. Það sem af er ári hefur úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands hækkað um tæplega 40%. Sama hækkun hefur orðið á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 12 mánuðum. Þetat kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag.

Í samtali við Ólaf Klemensson hjá Seðlabankanum í Viðskiptablaðinu í dag kom fram að ástæðu fyrir þessari hröðu hækkun kvótaverðs að undanförnu megi rekja til hærri veðhlutfalla hjá viðskiptabönkunum og greiðari fjármögnun frá þeim til kvótakaupa. Fregnir hafi borist af því að veðhlutfall hjá bönkunum hafi hækkað nokkuð á seinustu misserum og farið úr um 50% í fyrra upp í allt að 75% nú. Sagðist Ólafur fyrst hafa heyrt af aukinni fjármögnun frá bönkunum sl. vor sem vel fer saman við hækkun kvótaverðsins á sama tíma..

Ólafur sagði að þó hækkunin hefði verið mikil og verðið hátt núna í íslenskum krónum þá hafi það í raun verið hærra árið 2003 staðvirt með verði sjávarafurða í erlendum gjaldmiðli. "En athuga ber í þessu sambandi að þessi árstími, þegar nýtt fiskveiðiár gengur í garð, hefur oft haft í för með sér brenglað verð á aflahlutdeild."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.