Grænland og Evrópusambandið hafa gert með sér samning um fiskveiðar ESB innan grænlenskrar lögsögu. Samningurinn hefur tekið gildi og er gildistími hans til ársins 2026. Hann kemur í stað samnings frá árinu 2007.

Hilmar Ögmundsson sat í samninganefndinni fyrir hönd grænlenska fjármálaráðuneytisins. Hann segir að markmiðið hafi alveg frá upphafi verið það að skera niður kvótann og það hafi náðst fram að talsverðu leyti.

Fiskveiðisamningurinn færir Grænlendingum auknar greiðslur frá ESB á sama tíma og kvótinn minnkar í flestum tegundum. Þó ekki í þorski sem fer úr 1.800 tonnum á ári í 1.950 tonn. Karfakvótinn lækkar úr 4.000 tonnum í 1.840 tonn en ESB veiddi einungis um 1.400 tonn af karfa innan grænlenskrar lögsögu á síðasta ári. Mestu munar þó um lækkun á grálúðukvóta til ESB sem fer úr 7.700 tonnum 7.200 tonn. Grálúðan er sú tegund sem skiptir Grænlendinga hvað mestu máli.

Rækjukvóti ESB við Austur-Grænland var 5.100 tonn en aðildarríki sambandsins veiddu þar á síðasta ári um 3.000 tonn. Samkvæmt nýja samningnum fer kvótinn niður um 250 tonn, í 4.950 tonn. Rækjukvóti við Vestur-Grænland verður óbreyttur, 2.600 tonn.

Árleg greiðsla fyrir veiðiheimildirnar, séu þær nýttar að fullu ásamt stuðningsgreiðslum til Grænlands, er tæpar 123 milljónir danskra króna, tæpir 2,6 milljarðir ÍSK.