Bræðurnir Thomas og Raymond Kwok máttu horfa á eftir 2,3 milljörðum dollara af eignum sínum þegar þeir voru handteknir í síðustu viku, grunaðir um mútur.

Kwok bræðurnir stýra í sameiningu stærsta byggingafyrirtæki Hong Kong, Sun Hung Kai Properties (SHKP). Hlutabréfaverð fyrirtækisins féll um 13% þegar fregnir bárust af handtöku bræðranna. Kwok fjölskyldan er næstríkasta fjölskylda Hong Kong og voru eigur þeirra fyrir handtöku metnar á 18.3 milljarða dollara. Sú upphæð hefur nú fallið í 16 milljarða.

SHKP hefur lengi verið talið best rekna byggingafyrirtæki Hong Kong og hefur byggt margar af hæstu byggingum borgarinnar. Thomas og Raymond tóku við stjórn fyrirtækisins í september á síðasta ári. Þeir tóku við af móður sinni, Kwong Siu-hing, en eldri bróður þeirra, Walter, var ýtt úr formannssætinu árið 2008 vegna fjölskyldudeilna.