Kynbundinn launamunur innan VR er 8,5 prósent samkvæmt nýrri launakönnun félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en þar segir jafnframt að breytingin á launamuni sé umtalsverð til lengri tíma litið.

Munurinn á launum kynjanna var rúm 15 prósent árið 2000, og hefur því minnkað um 40 prósent síðan þá. Í könnun VR í fyrra mældist launamunurinn 9,4 prósent. Launamunurinn er munur á launum karla og kvenna eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifaþátta eins og vinnutíma, starfs, atvinnugreinar, mannaforráða og þess háttar.

Heildarlaun félagsmanna hækkuðu að meðaltali um sjö prósent milli ára og grunnlaun um 6,9 prósent. Þessar hækkanir eru umfram samningsbundnar hækkanir sem voru rúmlega sex prósent á tímabilinu.