Kynbundinn launamunur á heildarlaunum mælist nú 16,3% á vinnumarkaðnum í heild, samkvæmt nýrri rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á launum karla og kvenna.

Launamunurinn er, samkvæmt könnuninni, meiri meðal fólks sem starfar á almennum vinnumarkaði og enn meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Umtalsverður launamunur meðal framhaldsskólamenntaðra

„Hjá hinu opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélögum, mælist ekki marktækur kynbundinn launamunur meðal starfsmanna með grunnskólamenntun og með háskólamenntun, en hjá þeim sem falla í flokkinn framhaldsskólamenntaðir mælist hann umtalsverður," segir á vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins um könnunina.

Þar segir að könnunin sé sú fyrsta sem endurspegli vinnumarkaðinn í heild sinni. Ráðuneytið fól Félagsvísindastofnun að gera könnunina.