*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 12. desember 2020 19:01

Kynfræðsla verði ekki vandræðaleg

Íslendingar koma að þróun verðlaunaapps í popplistastíl í Danmörku til að ná til ungs fólks með kynfræðslu.

Höskuldur Marselíusarson
Aðsend mynd

Hópur nemenda, þar af tveir Íslendingar, við KEA háskólann í Danmörku unnu til nýsköpunarverðlauna í Kaupmannahöfn. Þau vonast eftir að koma nýju kynfræðsluappi, Cherry Pop, fyrir ungt fólk í loftið á næsta ári sem fræði án þess að vera vandræðalegt.

„Það var hinn Íslendingurinn í hópnum, Ása Valdimarsdóttir sem kom með nafnið, Cherry Pop, á kynfræðsluappinu sem við erum að þróa. Okkur öllum fannst það strax grípandi enda springur það svolítið í andlitið á manni og stuðar, enda markmiðið að ná til unga fólksins með kynfræðsluna. Nafnið vísar í þessa gömlu mýtu um að þegar stelpur missa meydóminn séu þær að rjúfa meyjarhaftið. Svo passar það líka einstaklega vel við útlitið sem við notum sem er í pop art, myndasöguhetjustíl," segir Oddur Hólm Haraldsson, einn stofnanda appsins.

„Hugmyndin byggir á því að nota teikningarnar til þess að ná til fólks og opna umræðuna um kynfræðslu, bæði út frá andlegu hliðinni og þeirri líkamlegu. Okkur hefur fundist vanta andlega hlutann í kynjafræðinni í heild sinni, hvort sem það tilheyrir kynlífi eða kynjum, og taka í burtu þau tabú sem eru til staðar í menningunni. Fræðslan á að útrýma fordómum svo fólk læri að sýna hvert öðru virðingu og viti að allir séu jafnir þátttakendur."

Mismikil fræðsla eftir löndum

Í hópnum sem að hugmyndinni að kynfræðsluappinu Cherry Pop standa eru auk Odds og Ásu þau Madeleine Malling Breen frá Noregi, Iza Hetmanowska frá Póllandi og L'udmila Zimermanová frá Slóvakíu, en þau kynntust í grafísku markaðsnámi við Tækni- og hönnunarháskólann í Kaupmannahöfn.

„Við erum öll saman í lærdómshóp innan bekkjarins en við erum í námi við Kobenhavns erhvervsakademi sem blandar saman markaðsfræði og grafískri hönnun. Í kúrs sem heitir Nýsköpun var hópunum lagt fyrir að koma með hugmynd að fyrirtæki, búa til viðskiptamódel, velta fyrir okkur fjármögnuninni og öllu heila klabbinu," segir Oddur Hólm sem spurður var hvernig þessi tiltekna hugmynd kom til.

„Hópurinn heldur mikið saman eftir skóla, og í spjalli okkar kom upp umræða um kynfræðsluna sem við fengum í grunnskóla og hversu léleg hún var og af samtölum okkar við yngri systkini sem sögðu hana enn þá vera sömu gömlu vandræðalegu rulluna. Stelpurnar sem koma frá Austur-Evrópu sögðu þó að þar hefði verið lítil sem engin kynfræðsla. Í framhaldinu datt Maddý frá Noregi í hug hvort við ættum ekki að reyna að leysa þetta vandamál í því verkefni sem okkur hafði verið lagt fyrir fyrr um daginn, svo við fórum að velta fyrir okkur útfærslunni. Niðurstaðan var að nýta það að grunnskólanemendur nota mikið spjaldtölvur í námi í dag, og búa til app."

Í kjölfarið vann hópurinn að hugmyndinni og fór með hana í svæðiskeppni nýsköpunar í Kaupmannahöfn og gerði sér lítið fyrir og vann bæði eigin flokk fyrir samfélagsverkefni sem og heildarkeppnina.

„Við settum saman þriggja mínútna kynningarmyndband sem dómnefndinni leist greinilega vel á því við fáum þá tvisvar 5 þúsund danskar í verðlaunafé, sem gerir um 200 þúsund íslenskar. Síðan förum við áfram í landskeppnina, þar sem við höldum áfram að þróa hugmyndina en lendum þá í öðru sæti í okkar flokki.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.