Lög um kynjahlutfall í stjórnum lífeyrissjóða kunna að ganga of langt og ekki hönnuð með hagsmuni lífeyrissjóðanna að leiðarljósi. Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að hún ætli að funda með stjórnvöldum vegna málsins. Lög um kynjahlutfall í stjórnum lífeyrissjóða tóku gildi nú um mánaðamótin. Sjö lífeyrissjóðir uppfylla ekki skilyrði laganna.

Lögum samkvæmt á hlutfall hvors kyn að vera 40% að lágmarki í stjórnum allra lífeyrissjóða. Í dag er það 44,4%.

Þórey segir í samtali við Fréttablaðið að í sumum lífeyrissjóða sé uppistaða sjóðfélaga af öðru hvoru kyninu, s.s. hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. „Það er allt hægt, það er hægt að búa til einhverja fléttulista en þá getur það líka verið þannig að það sé verið að ýta fólki út vegna þess að það er af öðru hvoru kyni. Það eru kostir og gallar í þessu,“ segir hún í samtali við blaðið.