„Ef fyrirtækin sýna ekki frumkvæði og skynja ekki að aukin þátttaka kvenna er í þágu þeirra eigin hagsmuna, er ljóst að afskipti löggjafans koma sterklega til greina."  Þetta sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra í ræðu sem hann flutti á námstefnunni Virkjum fjármagn kvenna í morgun.

Björgvin sagði að lögfesting á kynjakvóta væri þó líklega ekki skynsamlegt fyrsta skref. Nær væri að byrja á að lögfesta upplýsingaskyldu fyrirtækja um nöfn, stöðuheiti og ábyrgðarsvið stjórnarmanna og æðstu stjórnenda fyrirtækja, en slík upplýsingaskylda þekktist víða erlendis.

„Slíkt stuðlar bæði að því að fyrirtæki verði í auknum mæli meðvituð um skipun í stjórnir og ábyrgðarstöður auk þess sem slíkt auðveldar öflun gagna um kynjahlutföll stjórnar og stjórnenda í fyrirtækjum," sagði hann.

„Ef ljóst þykir að ekkert annað dugar er ekki hægt að útiloka beitingu lögbundins kynjakvóta, líkt og gert hefur verið í Noregi," sagði ráðherrann enn fremur. Ræðuna má sjá í heild sinni hér .

Námstefnan var haldin á vegum Samtaka atvinnulífsins í morgun og kemur fram á vef SA að á fjórða hundrað manns hafi tekið þátt í henni.