Forystumenn núverandi stjórnmálaflokka hafa talað fyrir því að setja kynjakvóta á stjórnir fyrirtækja.

Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Margrét Kristmannsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA) og framkvæmdastjóri Pfaff að að sú leið verði þrautalending þegar allar aðrar leiðir hafa verið reyndar.

Hún segir að sumir telji að svo sé nú þegar, en Margrét telur það ekki fullreynt enn. Best sé að atvinnulífið átti sig sjálft á nauðsyn þess að hafa fjölbreytni og losni þannig við að stjórnvöld setji á kynjakvóta.

„Ég veit að ríkisstjórnarflokkarnir sem nú eru við völd munu líklega ekki hika við það að setja á kynjakvóta ef viðskiptalífið sjálft bregst ekki við. Því höfum við ákveðið að viðskiptalífið sjálft bregðist við,“ segir Margrét og vekur athygli á því að í dag verður skrifað undir samstarfssamning milli FKA, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs, þess efnis að þessi félög munu sjálf taka ábyrgð og forystu í þessu brýna hagsmunamáli, sem vonandi skilar þeim árangri að kynjakvóti verði ekki nauðsynlegur.

„Við höfum orðið vör við það á síðustu árum að stjórnendur fyrirtækja hafi gefið í skyn að þeir vilji fá konur í stjórn en þær séu ekki tilbúnar til að taka sæti í stjórnum,“ segir Margét.

„Í fyrra birti FKA auglýsingu í öllum helstu blöðum, þar sem 100 konur úr atvinnulífinu lýstu sig reiðubúnar til að taka sæti í stjórnum fyrirtækja ef þess væri óskað. Þessi auglýsing hefur alveg eytt þessari umræðu enda var hún ekki á rökum reist.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegu viðtali við Margréti í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .