Nýverið lýsti framkvæmdastjórn Evrópusambandins (ESB) því yfir að unnið væri að lagabreytingum sem munu innleiða kynjakvóta í stjórnir skráðra fyrirtækja í löndum ESB. Konur eiga samkvæmt þessu að skipa 40% stjórnarmanna fyrir árið 2020 að því er fram kemur í Financial Times.

Þann 1. september á næsta ári munu taka gildi hér á landi ný lög um kynjakvóta í einkahlutafélögum, hlutafélögum og lífeyrissjóðum en þau hafa þegar tekið gildi í opinberum hlutafélögum. Berglind Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá KPMG, hefur haft umsjón með könnun sem hefur verið gerð meðal stjórnarmanna þar sem þetta hefur verið skoðað. Berglind segir Ísland ganga lengra en nágrannalöndin þar sem þessi löggjöf mun eiga við fyrirtæki þar sem 50 starfsmenn eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli.