Dómnefnd í samkeppni um listskreytingar í nýrri fangelsisbyggingu á Hólmsheiði hefur lokið störfum og mun Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður dómnefndar, kynna niðurstöðurnar á Háskólatorgi á morgun ásamt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og gestum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni.

Fram kom í Viðskiptablaðinu fyrir mánuði að 25 milljónum króna verði varið í listskreytingar við byggingu nýja fangelsisins á Hólmsheiði. Lögum samkvæmt skal verja einu prósentustigi af byggingarkostnaði nýbygginga á vegum ríkisins til listskreytinga.

í lögum um listskreytingasjóð, sem eru um 30 ára gömul, er kveðið á um að opinberar byggingar ásamt umhverfi þeirra, svo og önnur útisvæði í opinberri eigu, skuli fegra með listaverkum.

Unnið er að því í samráði við myndlistarmenn um það hvernig ráðstafa skuli ríkisfjármagni í listskreytingar á öllum opinberum byggingum.