Fjármálaráðuneyti Bretlands tilkynnti í gær að nýja hönnunin á eins punds myntinni færi í umferð þann 28 mars næstkomandi. Einnig kom fram að stefnt var að því að koma gömlu myntinni úr umferð um miðjan október.

Þetta er í fyrsta sinn í þrjátíu ár sem að breska ríkisstjórnin breytir eins punds myntinni, en hún hefur verið í umferð frá árinu 1987. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu breska er tekið fram að myntin verði sú öruggasta í heimi og er kynnt til þess að koma í veg fyrir fölsun.

Samkvæmt tölum ráðuneytisins þá er um 3% af 1 punds myntinni sem er í umferð falsaðar eða því sem jafngildir 46 milljónum punda.

Hönnuð af táningi

Nýja myntin er hönnuð af breska táningnum David Pearce en keppni var háð um hönnun pundsins fyrir tæpum tveimur árum. Pearce sem var þá fimmtán ára gamall, sigraði 6 þúsund keppendur um bestu hönnun myntarinnar.

Ekki eru allir par sáttir við nýju hönnunina, en til að mynda hafa sum fyrirtæki hafa lýst yfir óánægju með breytinguna. Fremst í flokki eru fyrirtæki sem notast við sjálfsöluvélar, en þau hafa áhyggjur af kostnaði vegna breytinganna. Samkvæmt áætlun þeirra þá kostar það um 32 milljónir punda að breyta 500 þúsund sjálfssöluvélum í Bretlandi til þess að þær geti tekið á móti nýju myntinni sem er öðru vísi í laginu en sú gamla.