Alcoa og HRV kynna nú tillögu að matsáætlun vegna álvers á Bakka við Húsavík með framleiðslugetu allt að 346.000 tonn á ári. Tillagan er til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun næstu 4 vikurnar og er auglýst á vef Skipulagsstofnunar.  Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Álver Alcoa fellur undir lög nr. 106/2000 m.s.br., um mat á umhverfisáhrifum, skv. 5. gr. og 5. mgr. 1. viðauka laganna. Alcoa er framkvæmdaraðili verksins en mat á umhverfisáhrifum verður unnið af HRV Engineering.

Í tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst í stuttu máli og með hvaða hætti framkvæmdin samræmist skipulagi svæðisins. Greint er frá, á hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis verður lögð mest áhersla í frummatsskýrslu. Einnig er fjallað um hvaða athuganir og rannsóknir eru fyrirhugaðar á vegum framkvæmdaraðila og yfirlit gefið yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja og þegar hefur verið aflað. Þá verður fjallað um undirbúning framkvæmda og sett fram yfirlit yfir þá hagsmunaaðila og stofnanir sem samráð verður haft við í matsferlinu.