Hvað sem hefur orsakað hræringar á hlutabréfum í vikunni blasir það við að fjárfestar eru að endurnýja kynnin við áhættuna sem fylgir þátttöku á fjármagnsmörkuðum.

Það gildir einu hvort að áhyggjur af hugsanlegum inngripum kínverskra stjórnvalda í hlutabréfamarkaðinn þar í landi, fasteignarmarkaðnum í Bandaríkjunum, spennunni vegna kjarnorkuáforma Írana eða eitthvað annaðhafi valdið sveiflum á markaði: Það sem skiptir máli er í hvaða áttir ólíkir markaðir féllu.

Bæði hlutabréfamarkaðir á þróunarmörkuðum og rótgrónari mörkuðum féllu. Hrávörumarkaðir féllu einnig. Bandaríkjadalur féll en á sama tíma féll það sem flestir telja vera einu vörnina gegn falli þess mikilvæga gjaldmiðils: Gull. Eftirspurn fjárfesta eftir áhættuminni eignum endurspeglaðist á skuldabréfamörkuðum.

Julian Jessop, sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Capital Economics, bendir á að yfir línuna hafið lækkanir undanfarna daga ekki verið miklar. Sérstaklega þegar tekið er tillit til hversu mikið markaðir hafa hækkað undanfarin misseri. Hinsvegar bendir hann á að helsta áhyggjuefnið nú sé hvernig fjárfestar munu bregðast við þeirri áminningu að markaðsviðskiptum fylgir áhætta. Gengisflökt á flestum mörkuðum hefur verið í sögulegu lágmarki og þar af leiðandi voru fjárfestar farnir að gleyma áhættuþættinum.

Í hversu miklum mæli fjárfestar koma til með forðast áhættusamari fjárfestingar á næstu misserum kemur til með að ráðast út frá almennri þróun hagkerfa. Hræringar voru á mörkuðum fyrir ári síðan, meðal annars vegna vaxtamunarviðskipta - sérstaklega með íslensku krónuna - en áhrifin voru ekki víðtæk sem styrkleika bandaríska hagkerfisins og annarra stórra hagkerfa. Hinsvegar er ástandið öðruvísi og hjöðnun á fasteignamarkaðinum í Bandaríkjunum kann að draga úr neyslu og hagvexti.

Charles Dumas, sérfræðingur hjá Lombard Street ráðgjafarfyrirtækinu , segir hinsvegar að ekki sé von á markaðshruni. Hann bendir á að verðmat á eignum í flestum rótgrónum mörkuðum sé ekki of hátt, einkafjárfestar ráði yfir mikilli fjárfestingagretu og enn þá sé greitt aðgengi að ódýru fjármagni sem mun gera það að verkum að fjárfestar verði snöggir til ef að verð á hlutabréfum lækki of mikið. En þar með er ekki sagt að markaðir gætu ekki lækkað um tíu til tuttugu prósent. Hinsvegar er hrun ekki yfirvofandi, segir Dumas.

Hinsvegar getur niðurstaðan orðið mun verri ef að vinda tekur af vaxtarmunarviðskiptum en lántaka í jenum til fjárfestingar hefur haldið uppi verði á mörkuðum víðsvegar um heim undanfarin ár. Undanfarna daga hefur gengi þeirra gjaldmiðla sem hafa verið sterkir vegna vaxtamunarviðskipta lækkað. Íslenska krónan hefur lækkað um 3.3%, brasilíski realinn hefur lækkað um 4.4% og tyrkneska líran hefur lækkað um 4.8%. Umhugsunarvert er að spyrja hvort að þessar lækkanir verði til þess að fjárfestar hætti að stunda vaxtamunarviðskipti í þessum hagkerfum. Vaxtastigið í þeim er 14.24%, 17.5% og 13% á meðan japanskir stýrivextir eru 0.5%. Sennilega dugar veiking undanfarna daga ekki til þess, en áframhaldandi lækkanir gætu fengið fjárfesta til þess að endurmeta stöðuna. Þessir markaðir tóku skell í fyrra og verði hann meiri nú munu fjárfestar verða enn óöruggari með stöðu sína í þessum hagkerfum.