Kauphöll Íslands, í samstarfi við London Stock Exchange, heldur kynningardag fyrir markaðsaðila (e. Capital Markets Day) í London þann 8. nóvember nk. Kynningin verður haldin í húsakynnum London Stock Exchange og verður sótt af völdum hópi fagfjárfesta og greiningaraðila. Auk almennrar kynningar á íslenska markaðnum verða sérstakar kynningar frá sjö félögum. Fyrirtækin sem taka þátt í þessu verkefni með Kauphöll Íslands eru Bakkavör Group, Dagsbrún, FL GROUP, Íslandsbanki, Kaupþing Banki, Landsbanki Íslands og Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki. Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag rekur Þórður Friðjónsson tilefni kynningarinnar.

Gott gengi íslenska markaðsins hefur vakið töluverða athygli erlendis að undanförnu, enda hafa íslensk fyrirtæki verið framtakssöm í fjárfestingum erlendis. "Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er nú meðal stærstu markaða í heimi þegar tillit er tekið til stærðar hagkerfisins. Skráð fyrirtæki eru mörg hver með meiri starfsemi erlendis en heima fyrir. Þannig verða til erlendis, þrír fjórðu hlutar tekna stærstu 15 fyrirtækjanna.", sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands.

Kauphöll Íslands hélt svipaðan kynningardag í húsakynnum London Stock Exchange á síðasta ári og þótti hann takast með ágætum. Í ár var ákveðið að endurtaka leikinn og gera enn betur. Að loknum kynningum á félögunum verður fjárfestum og greiningaraðilum gefinn kostur á að funda með stjórnendum félaganna.

Kynningardeginum í London er ætlað efla íslenska markaðinn með því að leiða saman erlenda fjárfesta og íslensku félögin og gera markaðinn þannig sýnilegri erlendis.