Heilstæð kynning á stuðningsumhverfi nýsköpunar fór fram á Grand Hótel í dag. Var þetta liður í fyrstu evrópsku fyrirtækjavikunni (European SME Week) sem haldin er um alla Evrópu dagana 6.-14. maí. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, RANNÍS, Útflutningsráð og Samtök iðnaðarins stóðu að þessari kynningu, en þessir aðilar hafa haldið fjölbreytta viðburði á undanförnum dögum af þessu tilefni.

Þarna komu saman fulltrúar fyrirtækja, frumkvöðla og einstaklinga með góðar viðskiptahugmyndir. Á kynningarfundinum kynntu Byggðastofnun, Ferðamálastofa, Innovit, Kauphöllin, Klak, Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Rannís, Rannsóknaþjónusta HÍ, Samtök iðnaðarins, Einkaleyfastofa og Útflutningsráð þjónustu sína.

Þetta er í fyrsta skipti sem haldin verður svo heildstæð kynning á stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og standa vonir til að þetta geti orðið árlegur viðburður. Á fundinum endurspeglaðist hversu brotakenndur þessi stuðningur er í hugum frumkvöðla og þeirra sem standa í nýsköpun. Margir hafa þó notið margvíslegrar fyrirgreiðslu í kerfinu.

Í áhrifaríkum orðum Rúnars Ómarssonar hjá fataframleiðandanum NIKITA á fundinum kom fram að full þörf væri á að kortleggja þessa flóru stuðningsaðila og gera hana aðgengilega. Sagðist hann þó aldrei fengið einn einasta styrk fyrir sitt fyrirtæki frá þessum aðilum í gegnum tíðina.

„Ég held að þeir sem eru með einhverja hugmynd og vilja vinna í að koma henni á framfæri og selja, hvort sem það er hönnun, tækni eða þjónusta, geti bara týnst í öllu þessu umhverfi. Það væri gott að einhver myndi finna "guide" sem myndi leiða nýliða í gegnum allt þetta apparat."