Að sögn Þórdísar Sigurðardóttur, stjórnarformanns Teymis, var kallaður saman kynningarfundur með helstu kröfuhöfum félagsins í gær. Þar var farið yfir stöðu félagsins en eins og kom fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í dag er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu Teymis og stefnt að sölu eigna.

Á fundinn mætu fulltrúar nýju bankana enda eru kröfurnar þar. Þórdís sagði að mikilvægt hefði verið að fá fund með þeim svo allir væru upplýstir um stöðu mála. Hún vildi ekki upplýsa á þessari stundu hve miklar skuldirnar væru núna.

,,Það er ekki að ástæðulausu að slíkur fundur er kallaður saman. Hjá Teymi hefur þetta mest með þróun gengis að gera. Okkar skuldir hafa verið að hækka og útlit með rekstur ekki eins og hefur verið áður í ljósi efnahagsástandsins. Ég geri ráð fyrir að við séum í svipuðum sporum og margir aðrir en vonandi náum við að leysa þetta farsællega þannig að það hafi sem minnst áhrif á rekstur félaganna," sagði Þórdís. Hún tók fram að engin vandkvæði væru með að greiða laun.

Annar fundur með kröfuhöfum hefur verið ákveðinn í janúar.

Stoðir Invest eiga 32% hlut í Teymi en aðrir stórir hluthafar eru Milestone og Fons.