Samtök ferðaþjónustunnar standa fyrir kynningarfundi um norræna markaðinn  26. október nk. kl. 09:00-12:00 á Grand Hótel Reykjavík (Gullteigur A) og er markmið fundarins að ræða hvernig ferðamenn þaðan hegða sér nú og í framtíðinni.  Er fundur þessi þriðji í röð slíkra kynninga en áður hafa SAF staðið fyrir kynningum á bæði Þýskalands- og Bretlandsmarkaði.   Johanna Danielsson, framkvæmdastjóri "Travel & Tourism" hjá KAIROS FUTURE INTERNATIONAL AB, sem er leiðandi fyrirtæki í framtíðarsýn á markaði og markaðsrannsóknum mun fjalla um eftirspurn og hvaða breytingar eru framundan.

Johanna mun jafnframt greina frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar um norræna markaðinn "Scandinavian Travel Trends" þar sem lögð verður áhersla á markaðshlut og möguleika Íslands á hinum 4 Norðurlöndunum. Birkir Hólm Guðnason, svæðisstjóri Icelandair í Skandínavíu mun fjalla um hvar tækifærin liggja í að selja Ísland á hinum Norðurlöndunum og að lokum mun Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF fara yfir hagtölur um ferðir Norðurlandabúa á Íslandi.