„Af þeim nöfnum sem við vorum að vinna með þá fannst okkur Fagkaup vera best lýsandi fyrir okkar viðskiptamódel,“ segir Bogi Þór Siguroddsson, starfandi stjórnarformaður Fagkaupa, sem er nýtt heiti samstæðu hans og eiginkonu hans Lindu Bjarkar Ólafsdóttur.

Johan Rönning var fyrsta fyrirtækið sem hjónin festu kaup á árið 2003 en óhætt er að segja að umsvifin hafi aukist umtalsvert frá þeim tíma. Fyrsta starfsárið var veltan um 1,2 milljarðar eftir kaupin en velta samstæðunnar, sem nú telja Vatn og veitur, Áltak, Sindra og S. Guðjónsson, auk Johan Rönning stefnir í um 13 milljarða á þessu ári.

Fagkaup starfar eingöngu á fyrirtækjamarkaði og skilgreinir sig sem virðisaukandi þjónustufyrirtæki með iðnaðar- og byggingarvörur. Að sögn Boga hafa nú verið gerðar breytingar á skipulagi samstæðunnar sem miða að því að sameina allar tekjueiningarnar undir hatti samstæðunnar.

Keyptu sjö fyrirtæki á 14 árum
„Tveimur árum eftir kaupin á Johann Rönning keyptum við Sindra Stál og fljótlega bættum við svo við okkur annarri rafbúnaðarheildsölu, S. Guðjónsson. Árið 2006 keyptum vinnufataverslunina Hebron sem nú heitir Sindri vinnuföt. Árið 2007 tókum við þá ákvörðun að sameina einingarnar undir kennitölu Johan Rönning á meðan S. Guðjónsson var áfram rekið sem sér félag þar sem okkur fannst á þeim tíma það vera of nálægt Johan Rönning til þess að vera innan sama félagsins.

Eftir hrunið átti sér svo stað ákveðið úrvinnslutímabil en segja má að frá árinu 2013 hafi nýtt uppbyggingarskeið hafist. Árið 2015 festum við kaup á Áltaki sem fellur algjörlega undir viðskiptamódel okkar en það býður upp á álklæðningar og tengdar vörur en auk þess, steypumót, bæði leigu og sölu, hljóðvistarlausnir, kerfisloft auk annarra sérhæfðra byggingalausna. Þar er sama hugsunin að baki, við erum að flytja inn vörur, þjóna byggingar- og iðnaðarmarkaðnum og erum að selja inn á sambærilegan markað en með aðra vöruflokka.

Árið 2017 keyptum við svo pípulagningaheildsölurnar Efnissölu G.E. Jóhannssonar og Vatn og veitur sem hafa nú verið sameinaðar undir nafni þeirrar síðarnefndu. Stór áfangi í þeirri sameiningu náðist í síðustu viku þegar við opnuðum nýja og glæsilega lagnaverslun á besta stað á Smiðjuvegi 68-70. Um mitt síðasta ár keyptum við svo heildsöluverslunina Logey, sem nú hefur verið sameinuð inn í Sindra, en starfsemi þess fyrirtækis skaraðist að talsverðu leyti við starfsemi Sindra, en hefur bæði breikkað og dýpkað vöruframboð Sindra.“

Sáu tækifæri í sameiginlegri stoðþjónustu
Bogi segir að eftir kaupin á Áltaki og pípulagningarheildsölunum hafi í raun verið komnar upp ákveðnar aðstæður sem kölluðu á að ráðast aftur í stefnumótunarvinnu með það að markmiði að sameina alla starfsemina inn í eitt móðurfélag.

„Það er eins og allt hafi tilhneigingu til þess að fara í hringi. Eftir þessi kaup vorum við í raun komin í svipaða stöðu og árið 2007 með nokkur sjálfstæð hlutafélög innan samstæðunnar. Það var því kominn þörf á að horfa á samstæðuna heildstætt og velta fyrir okkur hvernig við gætum nýtt hagkvæmni stærðarinnar og nýtt styrkinn milli eininganna. Við sáum því tækifæri í að að einfalda skipulagið þannig að rekstrareiningarnar geti einbeitt sér að sölu, markaðsmálum og að leiða starfsmannahópinn en fái hins vegar þjónustu frá stoðsviðum með innkaup, fjármál, upplýsingatækni og sameiginlega yfirstjórn og það er sú vegferð sem við hófum í fyrra með stofnun Fagkaupa.“

Nánar er rætt við Boga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .