Reykjavík Excursions (Kynnisferðir) hafa bætt tólf nýjum hópferðarbifreiðum í flota sinn. Um er að ræða þrjá 19 sæta MP Sprinter, eina 30 sæta MB Vario, eina 70 sæta CDL Futura og loks sjö 57 sæta VDL Futura.

Að sögn Úlfars Þórs Marínóssonar, rekstrarstjóra Kynnisferða, eru kaupin á bifreiðunum liður í endurnýjun á bifreiðaflota félagsins sem nú telur um 80 bifreiðar.

Nýju bifreiðarnar hafa verið að koma til landsins jafnt og þétt síðustu mánuði en síðustu fimm bílarnir koma til landsins í byrjun maí.

„Það er ekki pláss fyrir þá alla í Norrænu í einu,“ segir Úlfar Þór í gamansömum tón í samtali við Viðskiptablaðið. Þá segir Úlfar Þór að sumarið líti vel út hjá félaginu og gera megi ráð fyrir því að flotinn verði vel nýttur.